Stækkun Sóltúns
Framundan er stækkun á Sóltúni og mikilvægt að íbúar og aðstandendur séu upplýstir um framkvæmdina.
Hvað stendur til að gera?
Eigandi fasteignarinnar, fasteignafélagið Reginn hf, hyggst stækka Sóltún á næstu misserum. Tvær álmur sem snúa út í garðinn verða lengdar á öllum þremur hæðum, einni hæð bætt ofan á og léttbygging fyrir nýja loftræstisamstæðu sett á hluta af þakinu. Þetta verður svokölluð létt bygging; stálburðarvirki með léttu þaki og útveggjaeiningum. Allt kemur þetta forsmíðað á staðinn, hvort sem það er burðarvirkið, þak eða vegg-einingar. Þetta gerir það að verkum að uppsetningartíminn verður skemmri en ella. Þá mun jarðvinnan vonandi taka einungis tvo mánuði og er tiltölulega einföld í framkvæmd. Við þessar breytingar fjölgar hjúkrunarrýmum úr 92 í 159. Upphafsdagur framkvæmdanna er ekki ljós en gætu hafist á sumardögum 2024.
Hver er ávinningurinn fyrir íbúa?
Húsnæðið var tekið í notkun 2002, fyrir rúmlega 20 árum. Við þessar breytingar verður húsnæðið uppfært miðað við nútímakröfur heilbrigðisstofnunar. Aðstaða undir sjúkra- og iðjuþjálfun verður stórlega stækkuð, nýtt fjölnotarými stækkað út í garð, loftlyftukerfi í öll herbergi, lyftur endurnýjaðar, loftræstikerfið endurnýjað svo dæmi sé tekið.
Munu þessar framkvæmdir hafa áhrif á daglega starfsemi?
Flesta daga munu framkvæmdirnar ekki hafa marktæk áhrif á daglega starfsemi en það munu koma dagar þar sem bregðast þarf við með skipulögðum hætti með breyttri dagskrá, starfsemi og verkefnum til að draga úr áhrifum á viðkvæma íbúa heimilisins. Slíkt verður undirbúið tímanlega og í samráði við íbúa, aðstandendur og starfsfólk.
Hvað verður gert til að takmarka ónæðið?
Í undirbúningi er gerð ítarlegar áætlunar um hvernig hægt er að draga úr raski og óþægindum með helstu sérfræðingum í framkvæmdum og heilbrigðisþjónustu aldraðra á meðan þessi nauðsynlega framkvæmd gengur yfir. Þá verður horft til reynslunnar af stækkun annarra heilbrigðisstofnanna, svo sem Landspítalans við Hringbraut, um hvernig draga megi úr hávaða og umferð og reyna að hafa ákveðinn fyrirsjáanleika um hvenær búast megi við að unnið sé að tilteknum þáttum á byggingatíma. Sem dæmi um aðgerðir til að lágmarka ónæðið:
- Á þeim dögum þar sem verður mesta raskið verður tímasett fyrir hvern dag hvenær mesti hávaðinn er og gerðar viðeigandi ráðstafanir.
- Ef herbergi losnar á 1. og 2. hæð nær miðjunni er möguleiki á að flytja íbúa þangað sem eru í endaherbergjum ef vilji er fyrir hendi.
- Iðjuþjálfunaraðstaða og stóri salurinn gerður að “afdrepi”. Þar verða þeir sem eru á t.d. 3. hæð fluttir niður yfir daginn þegar að mesti hávaðinn verður, búin til borðstofa og kósý setustofa, iðjuþjálfunin sjálf flytur starfið sitt upp á deildir.
- Sameinaðar deildir yfir daginn “af þeim einingum sem mesti hávaði er”.
- Það verður unnið meira saman á milli eininga td. með þá sem þola verst hávaða.
- Íbúar sem geta nýtt sér heyrnartól sem útiloka hljóð mun hjálpa til en henta ekki öllum.
- Skoða hvaða íbúar koma til með að þola hávaða illa og gerðar sérstakar ráðstafanir með þeim í samráði við ættingja. Í þeim tilfellum þar sem metið er að íbúar þoli raskið mjög illa má skoða að flytja sig á önnur hjúkrunarheimili, t.d. Sólvang í Hafnarfirði.
Af hverju er verið að stækka Sóltún?
Um 250 aldraðir eru á biðlista eftir hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu, þar af um 100 á okkar eftirsótta hjúkrunarheimili, Sóltúni. Það blasir við gríðarlega alvarleg staða fyrir aldraða og fjölskyldur þeirra ef ekki verða byggð ný hjúkrunarrými hratt þar sem fyrirséð er að biðlistinn muni lengjast með hlutfallslegri fjölgun aldraðra á næstu árum miðað við aðra aldurshópa. Til 2040 þarf að byggja 1600 ný hjúkrunarrými til að halda í við eftirspurnina en það þýðir eitt 94 rýma hjúkrunarheimili á ári. Þörfin fer vaxandi og Sóltún og Reginn hf (eigandi fasteignarinnar) eru að bregðast við þessari eftirspurn. Með þessum hætti er hægt að fjölga hjúkrunarrýmum mun hraðar en á nýjum lóðum sem þarf að deiliskipuleggja og er tímafrekt.
Hvað mun þetta taka langan tíma?
Reiknað er með að vegna þess að hönnun hefur tekið mið af því að framkvæmdir taki sem minnstan tíma þá er áætlað að framkvæmdir taki aðeins um 24 mánuði en innan þess tíma er hönnun og því eru framkvæmdir ekki allan þann tíma.
Má búast við ónæði á meðan framkvæmdirnar verða?
Framkvæmdir hafa ávallt í för með sér ónæði en mismikið á hverjum tíma. Skipulag, byggingarefni og hönnun miða að því að framkvæmdin taki sem stystan tíma, valdi eins litlum hávaða og hægt er og með minnsta mögulega raski. Samráðshópur íbúa og aðstandenda verður stofnaður sem mun verða upplýstur reglulega og haft tímanlega samráð við varðandi aðgerðir þegar raskið verður með meira móti.
Hefur samskonar byggingarframkvæmd verið gerð í jafn viðkvæmum aðstæðum og hér með starfsemi í gangi?
Já, það hafa í gegnum tíðina verið stöðugar viðgerðir og framkvæmdir á heilbrigðisstofnunum vegna endurbóta eða uppbyggingar á nýrri þjónustu. Dæmi má nefna margar framkvæmdir við Landspítalann, hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir var stækkað um eina hæð 2005 og fjölbýlum breytt í einbýli á 2. og 3. hæð. Nýbygging Sólvangs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði, við hliðina á eldri byggingu tekin í notkun 2019 og síðan var eldri byggingin gerð upp hæð fyrir hæð með starfsemi í gangi í húsnæðinu. Stjórnendur Sóltúns voru stjórnendur á þessum tíma þegar framkvæmdirnar voru á Sólvangi og hafa því reynslu af því að stýra starfsemi á heilbrigðisstofnun við sambærilegar aðstæður. Landakot var einnig gert upp með starfsemi í gangi og Hrafnista stendur að stækkun á Nesvellum um 60 rými.