Nýir lykilstjórnendur hjá Sóltúni
Eva Ýr Gunnlaugsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu. Eva hefur víðtæka reynslu á sviði mannauðsmála, þar sem hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri mannauðs og menningar hjá Alvotech, auk þess að hafa unnið við mannauðsmál hjá Landspítala, Össuri, NOVA og Vinnuvernd. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, MS gráðu í mannauðsstjórnun og BS gráðu í hjúkrunarfræði. Eva hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun.
Einar Örn Ævarsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Sólstaða ehf. Sólstöður er nýtt fyrirtæki innan Sóltúnssamstæðunnar og er markmið þess að draga úr mönnunarvanda íslenska heilbrigðiskerfisins með því að aðstoða hjúkrunarfræðinga frá öðrum löndum við að koma til Íslands og vinna sem slíkir. Sólstöður ehf. leggur áherslu á sjálfbærnissjónarmið og mikilvægi þess að standa vel að öllum ferlum búferlaflutninga erlends starfsfólks til landsins.
Einar hefur mikla reynslu af búferlaflutningum starfsfólks en hann var áður framkvæmdastjóri hjá Xpat Relocation Services sem sá um að aðstoða erlenda sérfræðinga við að koma til starfa á Íslandi. Einar hefur starfað sem sérfræðingur í ráðningum fyrir ráðgjafafyrirtækið Intellecta en lengst af hjá Arion banka. Einar útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá HR.
Eva Ýr og Einar hafa þegar hafið störf.